Baráttudagur verkalýðsins

Í dag, á baráttudegi verkalýðsins, gerðist ýmislegt. Við fórum að skoða myndlist á Korpúlfsstöðum og á Seljavegi. Svo fórum við út í garð að skoða páskaliljurnar, sem völdu daginn í dag til að springa út.

Birta þefar af nýútsprunginni páskalilju  Logi vökvar páskaliljurnar

Og í dag flutti Máni í kjallarann og ætlar að vera í mánuð meðan hann bíður eftir íbúðinni á Ránargötu. Hann tók Nemó, litla Chihuahua hundinn með.

Logi varð mjög kátur áðan þegar Nemó kom upp í heimsókn. Hann hljóp útum allt á eftir Nemó og hrópaði "Máni, Máni, Máni". Eftir nokkurn eltingaleik flúði hundurinn undir sófann. Logi lagðist á gólfið, teygði litlu búttuðu krumlurnar undir sófann og hrópaði "Máni, kondu, óó, máekki, skamm!"

Logi kallar á ´Mána´ undir sófanum

Hvaðan ætli barnið hafi þennan orðaforða?


Hundanöfn

Í fyrradag kom Máni í heimsókn með hundana þrjá, Argo, Aþenu og Nemó. Hann hefur lagt þó nokkuð á sig við að kenna Loga nöfn hundanna. Því miður virkar það þannig að Logi kallar alla hundana sama nafninu: Máni.

Logi og Máni með Nemó, Aþenu og Argo  Logi og Máni klappa Aþenu

Máni hefur nú gefist upp á að kenna Loga nöfn hundanna og reynir örvæntingafullt að fá Loga til að kalla þá bara "Voffvoff".

Það gengur því miður ekki. Logi kallar hundana Máni, Máni og Máni.


Kjötbollur og þjóðminjar

Undanfarna daga hef ég fundað með aðilum sem hafa áhuga á endurbyggingu gamalla húsa. Á slíkum fundum er stundum rætt um önnur mikilvæg málefni, meðal annars var eftirfarandi uppskrift sett fram:

Tveir krakkar, nautahakk, 10 Ritzkex og pakki af púrrulaukssúpu. Krakkarnir eru látnir mylja Ritzkexið ofaní nautahakkið og súpuduftinu bætt útí. Krakkarnir hnoða hakkið, búa til litlar kúlur úr því og setja í ofnfast form. Kjötbollurnar eru síðan settar inn í 200 gráðu heitan ofn í ca korter.

Hér eru krakkarnir að telja kex og merja allt saman:

Telja Ritzkex  Öllu blandað saman

Og svo er bara að skella þessu í ofninn og éta með makkarónum:

Klárt í ofninn  Og svo borða

Magnið af nautahakki skiptir ekki öllu máli. Hinsvegar er mjög mikilvægt að Ritzkexin séu ákkúrat nákvæmlega 10, svo hægt sé að telja þau ákkúrat og nákvæmlega áður en þau eru mulin  í hakkið.

Uppskriftin er frá Þjóðminjaverði.


Ef ég er úti þá er ég úti

Logi þurfti að fá sér síðdegisblund í gær, en var eitthvað órólegur svo ég fór og lagði mig með honum. Sagði Birtu frá því og lokaði svefnherbergishurðinni. Þegar ég kom fram hálftíma síðar voru þessi skilaboð á gólfinu fyrir framan hurðina:

Skýr skilaboð

Textinn er eftirfarandi:

"Þeta er Birta pabbi. Ég alla að leika við Einar, ef þú sjerð mig ekki úti þá er ég inni en efðú sérð mig úti þá er ég úti."

Það er gott að vera svona klár og geta skrifað skýr skilaboð til pabba síns. Þá þarf hann ekkert að hafa áhyggjur yfir því hvar maður er.

Descartes hefði ekki geta sagt þetta betur: Ef ég er úti þá er ég úti.


Logi og Anní í Húsdýragarðinum

Í dag var farið í Húsdýragarðinn að klappa dýrunum. Hér eru Logi og Birta að spjalla við bolann og klappa beljunni.

Logi spjallar við Bola  Logi og Birta klappa beljunni

Svo var farið í hringekju og lestarferð.

Hringekja!  Í lestinni

Logi hefur undanfarið kallað systur sína "Anní". Þetta er mjög undarlegt þar sem systir hans heitir Birta. Nú hef ég leiðrétt þetta nokkur hundruð sinnum undanfarna daga og sagt við drenginn að systir hans heiti Birta. Skiptir engu máli. Ég bendi á systur hans og segi "Birta". Spyr hann svo hvað hún heiti. Hann segir að bragði "Anní". Hann gengur um húsið og hrópar "Anní" þegar hann er að leita að systur sinni. Og þó þetta sé voða kjút þá skil ég bara ómögulega hvaðan þetta kemur.

Annað undarlegt orð er orðið "dlinni". Fyrir nokkrum mánuðum var hann að reyna að segja "bíllinn". Hann sleppti einfaldlega fyrstu tveim bókstöfunum (bí) og hefur síðan sagt "dlinni" þegar hann meinar bíllinn. Nú vill svo til að helsta áhugamál hans eru bílar og allt sem er á hjólum eða rúllar. Þannig er helsta áhugamálið "dlinni" og hann notar þetta orð hundrað sinnum á dag.

Það er alveg sama hvað maður reynir að leiðrétta þessi tvö orð. Það bara gengur ekki.

Sérstakt.

 


Hjónabandsglæpir

Fór að sjá leikritið Hjónabandsglæpir eftir franska leikskáldið Schmitt Abel Snorko í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Brilljant verk. Og frábær flutningur hjá Hilmi Snæ og Elvu Ósk. Magnað samspil. Mæli eindregið með þessu verki.


Sumardagurinn fyrsti

Við Birta og Logi fórum inn í Frostaskjól og héldum upp á sumardaginn fyrsta með því að fara í hoppukastala og fá okkur candy floss og pulsur. Og blása sápukúlur.

Svo kíktum við niðrá Lækjartorg.....

Birta og Logi í Austurstræti

...... og þar var Austurstræti 22 brunnið til kaldra kola........

Brunnið til kaldra kola

...... og stofu-slökkviliðsstjórinn þurfti að halda ræðu

 


Ræðuhöld í stofu

Birta hélt ræðu í skólanum sínum í morgun. Hún hafði teiknað 8 myndir á 8 blöð og númeraði blöðin að aftan. Síðan skrifaði hún lýsingu á myndunum á önnur 8 blöð, líka númeruð. Hún setti öll blöðin í voða fínt box sem hún fékk í jólagjöf frá Stínu frænku.

Svo fórum við í skólann. Ég hélt á boxinu og hún hélt ræðuna. Hún las af textamiðunum og ég tók myndirnar upp úr boxinu og sýndi öllum krökkunum þær. Allt í réttri röð. Þá var nú gott að Birta var búin að númera myndirnar!

Birta heldur ræðu  Birta og krakkarnir í bekknum

Birta skipulagði þetta alltsaman sjálf og hugmyndafræðin var algerlega hennar, pabbi kom hvergi nálægt þessu. Hann var bara mest hissa. Og glaður. Það er ljóst að hún hefur alla hæfileika sem þarf til þess að verða slökkviliðsstjóri sem heldur ræður.

Hún var spurð af hverju hún sagðist ætla að verða "slökkviliðsstjóri og vera í stofu eins og pabbi". Það var einfalt: Það er sófi í herberginu þar sem pabbi vinnur og hún ætlar líka að vinna í stofu.

Klár stelpa.


Ammæli!

Birta ákvað að halda uppá afmælið hans pabba með því að kaupa pizzu og setja þrjú kerti á pizzuna! Eitt fyrir hvern áratug:) Og skrifaði kort og umslag með myndum og hamingjuóskum.

Birta og Logi með ammælistertuBesta afmælisgjöfin!

Fréttabréf Skýjaborga (frístundaheimili Birtu) var að koma út. Þar eru nokkur börn spurð hvað þau ætli að gera þegar þau verða stór. Birta sagði:

"Ég ætla að verða annað hvort slökkviliðsstjóri og vera í stofu eins og pabbi að tala við menn og halda ræður eða verða dýralæknir því að ég elska dýr."

Slökkviliðsstjóri sem heldur ræður eða dýralæknir. Það er ekki amalegt.


Máni og Argo

Máni og Argo komu í heimsókn:

Máni og Argo

Þeir ætla kannski að fá að búa í kjallaranum í maí, meðan þeir bíða eftir að fá nýju íbúðina, sem er í Vesturbænum. Svolítil viðbrigði að flytja utan af landi (Kjalarnesi) til stórborgarinnar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband